Eimskip segir upp 72 starfsmönnum um mánaðamótin. Þá lækka laun starfsmanna sem hafa yfir 300 þúsund krónur á mánuði um 10%. Skipum félagsins verður fækkað um þrjú.
Hf. Eimskipafélag Íslands segist í tilkynningu hafa gripið til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða í ljósi efnahagsaðstæðna, sem meðal annars komi fram í verulegum samdrætti á innflutningi til landsins.
Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til er fækkun skipa sem þjónað hafa inn- og útflytjendum félagsins á Íslandi. Fækkað var úr 11 skipum í átta, auk þess sem gripið var til margra annarra hagræðingaraðgerða er snúa að siglingakerfinu, innanlandskerfinu og öðrum þáttum í rekstri félagsins.
Í tengslum við flutningaþjónustu Eimskips á Íslandi starfa um 1.500 starfsmenn þar af um 900 á Íslandi. Félagið segir, að til að komist verði hjá verulegri fækkun starfsmanna hafi verið ákveðið að lækka laun um 10% hjá þeim starfsmönnum sem hafa yfir 300.000 króna mánaðarlaun ásamt því að draga úr vakta- og yfirvinnu.
Þrátt fyrir þessar aðgerðir hafi þó ekki verið komist hjá því að grípa til uppsagna í lok mánaðarins og verði 25 starfsmönnum á Íslandi og 47 starfsmönnum í Evrópu sagt upp.
Áætlaður sparnaður á ársgrundvelli mun vera 2,4 milljarðar króna, þar af 550 milljónir vegna lækkunar launakostnaðar.
„Rétt eins og önnur fyrirtæki í landinu er Eimskip að sigla í gegnum erfitt skeið sem kemur meðal annars fram í verulegum samdrætti í innflutningi. Ofan á þetta bætast erfiðar aðstæður á alþjóðflutninga- og fjármagnsmörkuðum. Því var okkur nauðugur einn kostur að grípa til umfangsmikilla hagræðingaraðgerða. Af tveimur slæmum kostum var það frekar vilji okkar að lækka laun starfsmanna sem hafa yfir 300 þúsund í mánaðarlaun, fremur en segja upp fleiri starfsmönnum í því erfiða árferði sem nú ríkir á vinnumarkaði og almennt í íslensku þjóðfélagi,“ segir Gylfi Sigfússon forstjóri í tilkynningu.