Dregið úr ferðum hjá Strætó en gjaldskrá óbreytt

Stjórn Strætó bs. samþykkti í dag rekstraráætlun fyrir næsta ár. Hún felur m.a. í sér ákvarðanir um aukin framlög til reksturs strætisvagna árið 2009. Dregið verður úr tíðni ferða utan annatíma en vonast er til að ekki þurfi að koma til uppsagna starfsfólks eða að hækka gjaldskrá.

Í tilkynningu segir Strætó bs. að nauðsynlegt sé að laga þjónustuna að erfiðri stöðu í rekstri Strætó bs. sem að öllu leyti megi rekja til gríðarlegra kostnaðarhækkana í kjölfar gengisfalls krónunnar. Samhliða því muni sveitarfélögin sem að Strætó bs. standa auka framlög sín til byggðasamlagsins um 10% á næsta rekstrarári til að hægt verði að halda uppi háu þjónustustigi og bregðast við aukinni eftirspurn almennings eftir þjónustu Strætó.

Utan annatíma, þ.e. um kvöld, helgar og helgidaga, verður dregið úr ferðum. Félagið segir, að unnið sé að nánari útfærslu, en ákvarðanir verði teknar með tilliti til nákvæmra mælinga sem gerðar hafi verið á farþegafjölda í strætisvögnum síðustu misseri og nú síðast í haust. Miðist þær ákvarðanir við að fækka ferðum, sem afar fáir farþegar nýta sér að jafnaði. Þjónustutími Strætó mun þó ekki styttast og vagnar munu áfram aka fram undir miðnætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert