„Það er alveg ljóst að þetta hlýtur að bitna á dagskránni, hún verður einsleitari með færra fólki. Ég held fastráðnu starfsfólki en lausráðnu fólki fækkar. Ég hef þegar þurft að sjá á eftir 20 lausráðnum dagskrárgerðarmönnum,“ segir Sigrún Stefánsdóttir, dagskrárstjóri Rásar 1 og Rásar 2.
Hún þarf líkt og yfirmenn annarra deilda Ríkisútvarpsins ohf. að sæta 20% niðurskurði.
„Það sem mestu skiptir er að við báðar rásir starfar fólk sem vill takast á við þennan vanda. En þetta þýðir niðurskurð og einföldun í allri dagskrárgerð. Mér sýnist að það þurfi sérstaklega að spara í sumardagskrá en það á eftir að koma betur í ljós,“segir Sigrún Stefánsdóttir.