Endurreisnarsjóður í bígerð

Ingibjörg S. Guðmundsdóttir.
Ingibjörg S. Guðmundsdóttir.

Verið er að undirbúa að stofna endurreisnarsjóðs á vegum verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda, lífeyrissjóða og ríkisins. Hlutverk hans á að vera að styrkja með einhverjum hætti fyrirtæki sem enn eru lífvænleg en eiga í vanda vegna lausafjárkreppu. Þetta kemur fram í viðtali við Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ, í Austurglugganum.

Fram kemur að ASÍ hafi undanfarið rætt við atvinnurekendur um möguleika á stofnun endurreisnarsjóðs.

„Við erum að hugsa um sjóð sem myndi samanstanda af framlögum frá lífeyrissjóðunum, vonandi ríkinu og fjárfestum annars staðar frá. Hugmyndin er sú að þessi sjóður væri með mjög færa starfsmenn sem færu í þau fyrirtæki sem ættu möguleika á að ganga og þeim yrði hjálpað með því ýmist að lána til þeirra peninga, kaupa hlutfé eða með þeim hætti að leggja til breytingar og setja jafnvel fólk inn til þess. Þetta væri í samlagsformi; sjóðurinn myndi standa í tíu til fimmtán ár og síðan yrði hann leystur upp og eigendur tækju til baka með ávinningnum það sem inni í honum væri,“ er haft eftir Ingibjörgu í Austurglugganum.

Hún segir að einhver áhætta myndi fylgja því að endurreisnarsjóður kæmi að málum og að slíkur sjóður yrði að byggja á skýrri siðferðilegri reglu. „Við verðum að búa til lífæð fyrir fyrirtækin til þess að þau geti haft fólk í vinnu og til að atvinnuleysið verði ekki enn meira. Það er því unnið á öllum vígstöðvum við að reyna að takmarka skaðann og koma hlutunum af stað aftur.“

Austurglugginn 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka