Fé Orkuveitunnar 10%

mbl.isÓmar

Eigið fé Orkuveitu Reykjavíkur er rúmlega tíu prósent umfram skuldir. „Það sígur stöðugt á ógæfuhliðina,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar. Hlutfall eigin fjár var 46% í upphafi árs, hafði lækkað í 21% í níu mánaða uppgjörinu, og færist nú enn neðar.

„Ég sé að gengisvísitalan er nú 243. Hún þarf að versna töluvert áður en við förum á núllið.“ Hann segir engin ákvæði í lánasamningum sem leyfi að þeim verði rift þótt skuldir verði hærri en eigið fé. „Við stöndum vel að því leytinu til að við höfum gott handbært fé og engin hætta á að við getum ekki staðið í skilum. Við höfum miklar tekjur og staðan þarf að vera mjög slæm, í það minnsta allt næsta ár áður en kæmi að því að við gætum ekki greitt afborganir og vexti af þeim lánum sem við þurfum að borga af,“ segir hann og bætir við.

„Ef það verður, verður ekkert uppistandandi í þessu þjóðfélagi.“ Hann segir erfitt að sitja og fylgjast með genginu falla.

„En það er í sjálfu sér ekkert sem við getum gert. Við erum eins og aðrir áhorfendur að því sem er að gerast og getum ekki gripið til varna til að lagfæra okkar stöðu,“ segir Hjörleifur.

Hjörleifur segir hvorki í kortunum að segja upp starfsfólki né hækka verð. „Við höfum ekki gert ráð fyrir því að hækka gjaldskrá, þó svo að tilkostnaður okkar hækki. „Við verðum að þreyja ástandið með fólkinu í landinu.“ Draga verði úr framkvæmdum á Hellisheiði og vinnu við fráveitu á Vesturlandi.

Svandís Svavarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í stjórn Orkuveitunnar, segir stjórnarfund í dag, þann seinni um fjárhagsáætlunina. „Þetta efnahagsástand setur verulegt strik í reikninginn. Nú þarf að huga að kjarnastarfsemi fyrirtækisins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert