Frumvarpið vottur um uppgjöf

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Frikki

Gylfi Arn­björns­son, for­seti Alþýðusam­bands Íslands, ASÍ, gagn­rýn­ir gjald­eyr­is­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar harðlega. Þar sé á ferð dæma­laust frum­varp sem líti út fyr­ir að vera vott­ur um upp­gjöf. 

„Við eig­um eft­ir að fara bet­ur í saum­ana á frum­varp­inu, bæði inn­an okk­ar raða og inn­an okk­ar for­ystu. Mér líst mjög illa á þetta. Ég ótt­ast að með þessu sé verið að taka úr hönd­um okk­ar þá von sem við bár­um í brjósti um að krón­an gæti farið að styrkj­ast á næsta ári, sem þá myndi leiða til þess að verðbólg­an gæti farið hratt niður. Ég ótt­ast að svona höml­ur séu hrein­lega upp­gjöf og muni leiða til þess að gengi krón­unn­ar verði áfram veikt. Það þýðir að við erum ekki bara að festa verðbólg­una í sessi, við erum líka að halda henni á mjög háu stigi. Þannig að ég hef af þessu tals­verðar áhyggj­ur.“

Gylfi seg­ir ASÍ hafa heim­ild­ir fyr­ir því að frum­varpið hefði verið lagt fram að kröfu Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins. 

„Okk­ur hjá ASÍ var tjáð á fundi viðskipta­nefnd­ar Alþing­is í gær að þetta væri gert að kröfu Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins og að í vik­unni hefðu komið hingað full­trúa hans. Ég kann­ast ekki við eft­ir að hafa átt sam­ráð við full­trúa sjóðsins í októ­ber að það væri gerð krafa um svona höml­ur. Við lás­um ekki annað út úr yf­ir­lýs­ing­unni sem er til meðferðar á Alþingi en að það ætti að draga úr höml­um. Okk­ur var tjáð það í gær að þetta væru kröf­ur sem hefðu komið fram núna. Ég hef ekki tæki­færi til að ræða það við Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðinn, enda hef­ur okk­ur ekki verið boðið til þeirra viðræðna. Ég verð þó að viður­kenna að ég hef tals­verðar efa­semd­ir um að sjóður­inn hafi lagt fram þess­ar kröf­ur, því þetta er í and­stöðu við yf­ir­lýs­ingu hans um þróun gjald­eyr­is­markaða.“

Gylfi seg­ir að ef rétt reyn­ist bendi kröf­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins til að hann hafi ekki trú á aðgerðum stjórn­valda.

„Ef sjóður­inn hef­ur hins veg­ar lagt þessa kröfu fram er það vegna þess að hann hef­ur ekki trú á þeirri áætl­un sem nú er uppi um viðreisn efna­hags­lífs­ins. Hann treyst­ir ekki á að Seðlabank­inn og ríkið séu að gera þær ráðstaf­an­ir sem þarf til að hægt verði að fleyta krón­unni. Þannig að aft­ur kom­um við að því að það er til­finn­an­leg­ur skort­ur á að rík­is­stjórn­inni og Seðlabank­an­um tak­ist að skapa nægj­an­lega trú­verðug­leika í kring­um úr­lausn þess­ara verk­efna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka