„Kemur á versta tíma“

Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins.
Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Það er ekkert launungarmál að þetta kemur á versta tíma hjá okkur. Við ætlum að gera okkar besta til þess að sinna okkar hlutverki og munum endurskipuleggja okkur upp á nýtt með það í huga," segir Óðinn Jónsson, fréttastjóri Ríkisútvarpsins um uppsagnir á fréttasviði RÚV vegna niðurskurðar hjá stofnuninni. Af fréttasviðinu hverfa alls fimmtán manns sem sinna fjórtán stöðugildum, að sögn Óðins. Beinar uppsagnir eru 12 talsins.

Óðinn segir að harkalegasti niðurskurðurinn verði í íþróttafréttum, en þar er bæði sagt upp fréttamönnum og tæknifólki. „Við lítum ekki á þær sem okkar innstu kjarnastarfsemi. Það er auðvitað umdeilanlegt og menn geta haft ýmsar skoðanir á því, en ég valdi þessa leið," segir hann.

„Þá er niðurskurður á vaktinni hér, í veffréttunum og á svæðisstöðvunum, en reyndar bara á Akureyri," segir Óðinn. Þegar menn neyðist til þess að skera niður þurfi að forgangsraða. „Mín forgangsröðun gengur út á að styrkja okkur í innlendum fréttum á þessum tímum," segir hann. Innlendu fréttirnar verði ekki veiktar með beinum hætti, nema helst á vefnum.

Hann segir ekki hægt að líta svo á að verið sé allt að því að leggja svæðisútvörpin niður með sparnaðaraðgerðunum. „Nei, þvert á móti," segir Óðinn. Verið sé að hætta með svæðisbundnar útsendingar, en fólkinu sem verði eftir verði ætlað að setja inn fréttir á landsrásir RÚV. „Áætlunin gengur út á það að það muni styrkja innlenda fréttahlutann," segir Óðinn.

Undanfarið hefur RÚV verið með tvær fréttamannastöður erlendis, í London og í New York. Óðinn segir að staðan í Lundúnum verði lögð af í tengslum við aðgerðirnar, en fréttamaðurinn sem hefur starfað þar komi til starfa hjá stofnuninni hér heima. Staðan í New York sé í skoðun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka