Ný lög er varða gjaldeyrismál voru samþykkt á Alþingi laust fyrir klukkan fimm í nótt og öðlast þau þegar gildi. Viðskiptaráðherra mælti fyrir lögunum á Alþingi í gærkvöldi en samkvæmt lögunum er Seðlabankanum gert kleift með tímabundnum takmörkunum á gjaldeyrisviðskipti, í tvö ár eða til 30. nóvember árið 2010, að hindra fjármagnsflótta úr landi.
Fram kemur í áliti meirihluta viðskiptanefndar þingsins, að frumvarpinu væri ætlað að leiða í lög þær hömlur á gjaldeyrisviðskiptum sem leiði af sameiginlegri áætlun ríkisstjórnar, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsmál.
Í frumvarpinu felist, að gjaldeyrishöftum, öðrum en þeim er tengjast viðskiptum með vöru og þjónustu, verði viðhaldið með þeim hætti sem kemur fram í frumvarpinu. Frumvarpið sé því mikilvægur liður í heildaráætlun til að koma auknu jafnvægi á íslenskt hagkerfi.