Maður varð undir pallbifreið sem rann stjórnlaust áfram eftir veginum sem liggur á milli Laugarvatns og Úthlíðar. Að sögn lögreglunnar á Selfossi er málið ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu. Annar fótur mannsins er fastur undir bifreiðinni, en lögreglan segir að sílsalisti liggi á fætinum.
Unnið er að því að koma manninum til hjálpar með því að lyfta bifreiðinni. Vegfarandi kom að manninum og tilkynnti um slysið.
Ekki liggur fyrir hvers vegna bifreiðin rann á manninn. Lögreglan segir að sá sem varð fyrir bifreiðinni hafi verið í henni, en farið út úr henni með fyrrgreindum afleiðingum.