„Þetta var mjög erfitt. Ég held reyndar að starfsfólkið hafi gert sér grein fyrir því að sparnaðaraðgerðir væru í vændum. En þetta hefur áreiðanlega verið talsvert meira en fólk gerði ráð fyrir," segir Páll Magnússon, útvarpsstjóri, en hann tilkynnti á fundi með starfsmönnum Ríkisútvarpsins í dag að skera eigi niður um 700 milljónir króna hjá RÚV á næstunni. Að sögn Páls felur þetta í sér 19% niðurskurð.
21 starfsmanni RÚV hefur verið sagt upp störfum og samningum verið rift við 23 verktaka. Allt í allt hverfa 45 starfsmenn frá RÚV. Páll segir að hlutfallslegur samdráttur komi jafnt niður á öllum dagskrársviðum RÚV.
550 milljónir eiga að sparast með almennum aðgerðum hjá RÚV og 150 milljónir vegna fyrirhugaðrar tímabundinnar launalækkunar frá áramótum.
Páll segir að enn eigi eftir að búa til formúluna vegna launalækkunarinnar, en það verði flókið enda margir kjarasamningar í gangi á RÚV. Grófasta útfærslan sé sú að lægst launaða fólkið lækki ekkert, miðjuhópurinn, sem meginþorri starfamanna sé í, lækki á bilinu 6-7%. „Þeir hæstu og þar með talið ég sjálfur lækka um 10-11%," segir Páll.
Hann segir óvissu framundan hjá Ríkisútvarpinu. Óvíst sé hver nefskatturinn, sem fara eigi af stað um áramótin, verði. Þá sé ekki vitað nákvæmlega hvaða takmörk RÚV verði sett á auglýsingamarkaði.