Rætt um hryðjuverkalög Breta á Evrópuráðsþingi

Bygging Evrópuráðsins í Strassborg.
Bygging Evrópuráðsins í Strassborg. mbl.is/GSH

Steingrímur J. Sigfússon, alþingismaður, tók beitingu hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum í Bretlandi til umræðu á stjórnarnefndarfundi Evrópuráðsþingsins í Strassborg í dag. Var beiðni um utandagskrárumræðu var sett fram af Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

Í tilkynningu frá Alþingi kemur fram, að Steingrímur ræddi  einkum um beitingu hryðjuverkalöggjafar Bretlands í tilviki Landsbankans og aðgerðum breskra stjórnvalda gagnvart Kaupþingi auk ummæla breskra stjórnvalda í ljósi samanlagðra afleiðinga fyrir íslenska fjármálakerfið, fyrirtæki og hagkerfið í heild sem og orðspor Íslands almennt.

Þá vakti Steingrímur athygli á hugsanlegri misbeitingu breskra stjórnvalda á hryðjuverkalöggjöf sinni  og því slæma fordæmisgildi sem geti hlotist af beitingu slíkra laga   þegar gripið sé  til þeirra í öðrum tilvikum en þeim þar sem raunverulega sé um að ræða baráttu gegn hryðjuverkum.

Í umræðunni á eftir þótti almennt miður að bresk stjórnvöld skyldu beita sér gegn Íslandi með þeim hætti sem þau gerðu.

Breskir stjórnarandstæðingar bentu m.a. á að þegar hryðjuverkalögin voru sett á sínum tíma  hafi sá hluti laganna, sem notaður var til að frysta eignir Landsbankans, verið samþykktur með þeim formerkjum að þeim yrði eingöngu beint gegn óvinveittum ríkjum eða samtökum. Ísland væri ekki í þeim hópi. Því væri spurningarmerki sett við beitingu laganna í tilviki Landsbankans með vísan til lögmætis, réttlætingar og þess hvort lögunum hefði verið beitt til samræmis við tilefnið í ljósi þeirra alvarlegu afleiðinga sem beiting þeirra hafði fyrir efnahagsvanda Íslands, sem var alvarlegur fyrir.

Sú krafa kom fram í máli eins stjórnarandstöðuþingmannsins að fyrir dómstólum yrði skorið úr um lögmæti þess að beita lögunum í tilviki Landsbankans.

Þingmenn frá Hollandi og Sviss gagnrýndu einnig aðgerðir breskra stjórnvalda. Bent var á að beiting hryðjuverkalaganna bæri vott um skort á samstöðu í röðum aðildarlanda Evrópuráðsins sem sjálfviljug hafa skuldbundið sig til að leysa ágreining sín á milli á grundvelli virðingar fyrir meginreglum réttarfarsríkisins, mannréttindum og lýðræðislegum gildum.

Stjórnarþingmaður frá Bretlandi varði beitingu laganna en lagði jafnframt til að málið yrði skoðað ekki eingöngu með hliðsjón af samskiptum Íslands og Bretlands, heldur með tilliti til samskipta Íslands við stjórnvöld í Hollandi og Þýskalandi sem einnig höfðu málstað innstæðueigenda í íslenskum bönkum að verja.

Þeim tilmælum var komið á framfæri við forseta Evrópuráðsþingsins að vísa málinu til skýrslugerðar annað hvort í efnahags- og viðskiptanefnd Evrópuráðsþingsins eða áður í laga- og mannréttindanefnd þess og taka síðan málið til frekari umræðu á þingi Evrópuráðsþingsins sem verður í lok janúar 2009.
 

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka