Segir lögin fagnaðarefni

Lilja Mósesdóttir hagfræðingur.
Lilja Mósesdóttir hagfræðingur. mbl.is/Ásdís

Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur við Háskóla Íslands, segir nýtt frumvarp viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um gjaldeyrismál vera fagnaðarefni í sjálfu sér.  „Reyndar ætlar ráðherra að hafa höft, sem er af hagfræðingum ekki talin jafngóð leið eins og skattlagning fjármagnsútstreymis, því það býður upp á ákveðna spillingu þar sem taka þarf ákvörðun um hvaða fjármagnsfærslur á að leyfa og hvað ekki,“ segir Lilja.

Lilja bendir á að krónan hafi nú þegar fallið meira en hún féll í Asíulöndunum þegar bankakreppa gekk þar yfir. „Þar féll hún um 40-50%, en íslenska krónan hefur það sem af er ári þegar fallið um 60%. Þannig að við erum nú þegar komin með krónuna neðar en þessi lönd fóru með sína gjaldmiðla og samt var talað um að gjaldmiðill þessara landa hafi fallið of mikið og leitt til of mikilla gjaldþrota,“ segir Lilja.

Spurð hversu há skattlagningin hefði þurft að vera hefði skattlagningarleiðin verið farin segir Lilja ljóst að hún hefði þurft að vera allt að 60% til að byrja með en síðan getað lækkað niður í 20% þegar frá liði. 

„Ástæða þessa er að það hér í hagkerfinu eru enn um 800 milljarðar af krónubréfum sem vilja leita út. Bæði erlendir og innlendir fjárfestar sem eiga hér pening og vilja fara út úr þessu hagkerfi eru tilbúnir til þess að tapa töluvert af sínum pening bara til þess að komast út vegna þess að þeir sjá fram á mikinn efnahagssamdrátt hérna og mjög litla möguleika á að fá eitthvað út úr þessum peningum hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka