Banaráð Nýja Landsbankans féllst ekki á tillögu Kaldbaks um kaupin á TM, að því er fram kemur í tölvupósti frá bankanum til blaðsins í gærkvöldi.
Sala TM til Kaldbaks var samþykkt á hluthafafundi Stoða og beið samþykkis bankaráðs Landsbankans og Fjármálaeftirlitsins.
Gunnlaugur Sævar Gunlaugsson fór fyrir tilboði óstofnaðs félags Guðbjargar Matthíasdóttur, en hún og fjölskyldan áttu TM á undan Stoðum. „Ég skil nú hvorki upp né niður í þessu máli. Kaldbakur lagði ekki fram tilboð heldur bauðst til þess að taka yfir skuldir sem Stoðir skulda inn í Landsbanka. Svo var lýst yfir áhuga á að semja um að þær yrðu skornar niður. Ég skil ekki að hægt sé að taka slíku tilboði, það væri einhver vitleysa og málið allt hið undarlegasta,“ segir Gunnlaugur.
Lektor í hagfræði við Columbia-háskóla í New York, Jón Steinsson, gagnrýnir harðlega starfsaðferðir við sölu TM. Fjárfestar sitji ekki allir við sama borð í þessu máli. „Eða var TM auglýst til sölu? Var haldið uppboð? Var öllum áhugasömum aðilum boðið að kynna sér efnahag fyrirtækisins?“
Hann bendir á að Nýi Landsbankinn sé eign ríkisins. Eignir hans séu því einnig eignir ríkisins. „Hér er því í raun verið að selja stóra eign sem er ígildi ríkiseignar án þess að það sé gert eftir skýrum leikreglum. Slíkt má ekki gerast.“