Tveir íranskir hælisleitendur fái bráðabirgðadvalarleyfi

Íranarnir hafa dvalist á gistiheimili í Njarðvík.
Íranarnir hafa dvalist á gistiheimili í Njarðvík. mbl.is/ÞÖK

Dómsmálaráðuneytið hefur mælt fyrir um það að Útlendingastofnun gefi út bráðabirgðadvalarleyfi til tveggja íranskra hælisleitenda, sem hér hafa dvalist í um fjögur ár. Þetta kemur fram í bréfi ráðuneytisins sem dagsett er í dag og var m.a. sent lögmanni mannanna og Útlendingastofnun. Mennirnir hafa undanfarið verið í hungurverkfalli.

Í bréfi dómsmálaráðuneytisins segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsinigar og almennar aðstæður í Íran verði ekki unnt að framkvæma brottvísun þeirra eins og er. Ráðuneytið mælir jafnframt fyrir um það að Útlendingastofnun upplýsi mennina um möguleika á að sækja um atvinnuleyfi hér á landi.

Farzad Raahmanian, annar mannanna tveggja, segir þetta mikil gleðitíðindi. „Ég er mjög ánægður. Eftir að hafa verið hér allslaus í fjögur ár, þá eru þetta frábærar fréttir. Ég er mjög þakklátur,“ segir hann. Nú geti hann byrjað nýtt líf.

Hann segir að bæði hann og Mehdi Kavianpoor, hinn hælisleitandinn, hyggist hætta hungurverkfalli sem þeir hafa verið í undanfarið. Þeir þurfi að byrja smám saman að borða, eftir að hafa lifað á vatni og sykri undanfarið.

Arnar Þór Jónsson, lögmaður mannanna, segir bréf dómsmálaráðuneytisins í máli þeirra merkilegt miðað við fyrri niðurstöðu ráðuneytisins í málunum.  „Nú horfast menn loks í augu við staðreyndir, Ég lít svo á að í þessu felist í raun viðurkenning á því að það sé ekki hægt að vísa þessum mönnum til Írans,“ segir hann. Þar sé þeim hætta búin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka