Öllum fastráðnum starfsmönnum sem starfa fyrir Knattspyrnufélagið Val - á skrifstofu og í húsvörslu - hefur verið sagt upp, eða níu manns. Að sögn Stefáns Karlssonar, fjármála- og markaðsstjóra félagins, er stefnt að því að enduráða hluta starfsmannanna í næstu viku.
Stefán segir að þetta sé hluti af almennu aðhaldi í því árferði sem nú ríki í efnahagsmálum. Hann bendir á að einnig hafi verið gripið til ráðstafana hjá afreksflokkum félagsins. Þar hafi fólk tekið á sig launaskerðingu auk þess sem útrunnir samningar við erlenda knattspyrnumenn hafi ekki verið endurnýjaðir.
Ekki liggur fyrir hversu margir verða endurráðnir segir Stefán í samtali við mbl.is. Uppsagnirnar taka gildi um mánaðarmótin.