Verð áfengis og tóbaks hefur áhrif á vísitölu neysluverðs eins og fjöldamargir aðrir liðir vöru og þjónustu. Í síðasta mánuði hækkuðu áfengi og tóbak um 6,5% og hafði það 0,17% áhrif á hækkun vísitölunnar. Þar af vó hækkun á áfengi 0,09% og ef tekið er mið af 20 milljóna króna verðtryggðu láni frá Íbúðalánasjóði hækkaði þessi verðbreyting á áfengi höfuðstól lánsins um 18 þúsund krónur.
Á fimmtudag tók gildi verðbreyting í vínbúðunum sem er að meðaltali 4,38% til hækkunar. Verð breyttist á 1023 tegundum af þeim 1706 tegundum áfengis sem eru í boði í Vínbúðunum, 160 tegundir lækkuðu í verði, 863 hækkuðu en verð verður áfram óbreytt á 683 tegundum.
Með verðbreytingunni koma Vínbúðirnar til móts við óskir innflytjenda um tíðari verðbreytingar vegna ástandsins í efnahagsmálum og mikilla gengisbreytinga, segir á heimasíðu ÁTVR. Álagningarprósenta helst óbreytt eins og áður og áfengisgjöld, sem vega þungt í útsöluverðinu, breytast ekki heldur.