Tækifæri, ekki síður en hættur, liggja í þeim breytingum sem orðið hafa á samfélagi okkar síðustu vikur, að mati umhverfisfræðinga, sem segja sjálfbæra þróun mikilvæga í uppbyggingunni framundan.
Stefán Gíslason, verkefnisstjóri Staðardagskrár 21 á Íslandi, segir umhverfisfræðinga hafa áhyggjur af því hvaða áhrif kreppan muni hafa á umhverfismál hér á landi en um leið sjái þeir tækifæri í ástandinu.
„Ég heyri að fólk hefur áhyggjur af því að það verði erfiðara að fá peninga frá opinberum aðilum til umhverfismála,“ segir hann og bætir því við að sömuleiðis sé hætta á að fólk sé tilbúið til að slá af umhverfiskröfum við slíkar aðstæður. „Sú umræða var kannski sérstaklega áberandi fyrst eftir 6. október að nú yrði bara að gefa mönnum lausan tauminn við að veiða fisk og virkja allar ársprænur sem eftir væru. Svona hugsun á þó nokkurn hljómgrunn á Íslandi því Íslendingar hafa yfirleitt verið tregir að trúa því að umhverfisáhersla skili sér í budduna. Við erum talsvert á eftir öðrum þjóðum í þessum efnum.“
Hann segir hins vegar auðvelt að sjá rökvilluna í slíku. „Sænski umhverfisfræðingurinn Johan Rockström hefur bent á að það sé vel hægt að auka hagvöxt með því að fella öll trén og selja timbrið eða með því að ná í alla fiskana úr kóralrifjunum. Menn sjá hins vegar í hendi sér að það bæri dauðann í sér. Það myndi auka hagvöxtinn í eitt eða tvö ár en svo væri það búið.“
Á hinn bóginn sýni sagan að framfarir verði gjarnan í krísuástandi. „Menn hafa m.a. nefnt olíukreppuna upp úr 1970 sem dæmi. Þá tóku japönsk stjórnvöld ákvörðun um að einbeita sér að hátækni því það var augljóst að hinn hefðbundni, orkufreki þungaiðnaður myndi eiga erfitt uppdráttar. Menn reyndu þá að finna eitthvað sem væri smærra og þyrfti minna efni og olíu. Þar með tóku Japanar forystu í hátækniþróun sem þeir hafa eiginlega haldið síðan.“