Mótmælafundur er nú að hefjast á Austurvelli áttunda laugardaginn í röð. Ræðumenn á fundinum verða Kristín Tómasdóttir frístundaráðgjafi, Stefán Jónsson leikstjóri og Illugi Jökulsson rithöfundur. Samkvæmt upplýsingum lögreglu eru heldur færri í miðbænum nú en er mótmælafundur fór þar fram um síðustu helgi.
Telur lögregla að um 4.000 manns séu nú í miðbænum en um síðustu helgi er talið að sex til sjö þúsund manns hafi tekið þátt í mótmælasamkomu þar. Hefur allt gengið friðsamlega fyrir sig og ekkert sérstakt komið upp á.
Í tilkynningu frá Herði Torfasyni, skipuleggjanda fundarins, segir að krafist sé afsagnar núverandi stjórnar Seðlabankans, afsagnar núverandi stjórnar Fjármálaeftirlitsins og nýrra kosninga.