Hóta aðgerðum

Sverrir Vilhelmsson

Opinn fundur innistæðueigenda í peningabréfum Landsbankans, sem haldinn var sl. fimmtudag, samþykkti eftirfarandi ályktun:

„Ef eðlilegum kröfum okkar um fulla endurgreiðslu sparifjár í peningabréfum er ekki mætt, t.d. með því að kalla fulltrúa hópsins á fund fyrir 15. des. næstkomandi til að ræða úrbætur, þá verður gripið til aðgerða. Fyrsta aðgerðin verður að fara í dómsmál gegn Landsbankanum og/eða ríkisvaldinu.“

Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að alls hafi um 200 manns mætt á fundinn, en meðal fundarmanna voru yfirmenn Nýja Landsbankans, Ásmundur Stefánsson, formaður bankaráðs og Elín Sigfúsdóttir, bankastjóri og svöruðu þau fyrirspurnum sem beint var til þeirra. Einnig mættu tveir þingmenn, Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason. Þá var á staðnum talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason.

Meðal helstu atriða sem fram komu í máli fundarmanna var að Landsbankinn kynnti peningabréfin sem örugga og góða ávöxtuna- og sparnaðarleið. Bent var á að neyðarlögin hafi breytt stöðu eigenda peningabréfa mjög til hins verra, því fyrir lagasetningu hafi sparnaður fólks verið tryggari í peningabréfum heldur en hefðbundnari reikningnum. 

Á fundinum komu fram tillögur til úrbóta fyrir þennan hóp sem misst hefur 31,2% af sparnaði sínum. Þær snúa að skuldajöfnun, skattaafslætti til handa þessum hópi, að gefin verði út hlutabréf í Nýja Landsbankanum í stað þeirra fjármuna sem glötuðust, að mismunurinn verði gerður að inneign á verðtryggðum reikningi sem væri bundinn til 3-4 ára eða að greiddar verði skaðabætur vegna rangra upplýsinga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert