Hrafnista í Reykjavík átti lægsta tilboðið í rekstur skammtíma hjúkrunarrýma, en tilboðin voru opnuð hjá Ríkiskaupum í gær. Alls bárust þrjú tilboð.
Ríkiskaup auglýstu eftir rekstraraðila fyrir hönd heilbrigðisráðuneytisins til að reka allt að 35 skammatíma hjúkrunarrými og 30 dagdeildarrými. Hrafnista bauðst til að reka skammtíma innlagnir fyrir 25.545 króna daggjald fyrir hvert rými. Þá baust Hrafnista til að reka dagdeild fyrir 13.230 krónur fyrir hvert rými. Nesvellir ehf. bauðst til að reka skammtíma innlögn fyrir krónur 26.200 fyrir hvert rými. Fyrirtækið bauð hins vegar ekki í dagdeildina. Dagmar Jónsdóttir bauðst til að reka skammtíma innlagnir fyrir krónur 30 þúsund fyrir hvert rými. Hún bauð heldur ekki í dagdeildina. Gert er ráð fyrir því að rekstur hefjist 1. febrúar 2009 en æskilegt er talið að hann geti hafist fyrr.