Kaupmenn þrauka fram yfir jól

mbl.is

Kaupmenn í miðborginni segjast klárlega finna fyrir minni verslun en áður. Nóvember hafi yfirleitt verið frekar daufur, eftir að ágæt sala hafi verið í október. Þeir binda vonir við að átak Norræna félagsins og fleiri glæði miðborgina lífi á aðventunni. Engu að síður er hætt við að einhverjar verslanir og fyrirtæki á svæðinu hætti starfsemi að lokinni jólaverslun. Þegar er farið að bera á að verslanir hafa lokað, eða tilkynnt viðskiptavinum sínum að hætt verði eftir áramót.

„Kaupmenn munu svo sannarlega reyna að þrauka sem lengst og þá helst fram yfir jól og janúarútsölurnar. Spurningin er hve lengi menn geta þraukað. Það er hætt við að einhverjir lifi þetta ekki af,“ segir einn viðmælenda blaðsins úr röðum kaupmanna.

Klara Jóhannsdóttir, eigandi verslunarinnar Munthe plus Simonsen á horni Laugavegar og Vatnsstígs, segir að það þýði ekkert annað en að reyna að vera bjartsýn. Hún fagnar átaki Norræna félagsins og Hjálpræðishersins og vonar að afsláttarkortin og stemningin sem til stendur að skapa muni laða fólk í miðbæinn á aðventunni.

„Óneitanlega eru þetta erfiðir tímar fyrir kaupmenn og eitthvað verður að gera. Það þyrfti til dæmis að lækka húsaleiguna og bæði ríki og borg ættu að reyna að koma til móts við kaupmenn, svo ekki sé nú minnst á að reyna að festa gengið,“ segir Klara og bendir á að kaupmenn geti hreinlega ekki lagt á vörurnar þær upphæðir sem breytist kannski á viku frá því að pöntun fer fram þar til að þær koma í hús. Verið sé að selja vörurnar langt undir innkaupsverði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert