„Þetta er reiðarslag. Í þessum hópi eru gamalreyndir starfsmenn og innst inni vonar maður að þetta sé varúðarráðstöfun hjá fyrirtækinu og að verkefni finnist," segir Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar.
Fyrirtæki í byggingariðnaði hafa verið að fækka fólki vegna samdráttar og nú síðast tilkynnti Loftorka í Borgarnesi um uppsagnir 66 af þeim 120 starfsmönnum sem eftir voru hjá félaginu.
Í Borgarnesi hafa byggst upp stór fyrirtæki í byggingariðnaði og þau hafa verið að missa verkefni og fækka fólki. Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands, segir að fyrsta áfallið hafi komið í vor þegar 30 starfsmönnum Sólfells var sagt upp störfum. Þeir hafi flestir fengið fljótt vinnu annars staðar. Ekki séu eins góðar vonir fyrir þá sem eru að missa vinnuna nú. Margir starfsmanna Loforku eru á þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þar hefur unnið fjöldi Pólverja og margir þeirra eru búsettir á staðnum með fjölskyldur sínar.
Björn Bjarki segir að verið sé að fara yfir það hvort sveitarfélagið geti stuðlað að því að einhverjar framkvæmdir hefjist og segir einkum rætt um viðbyggingu Dvalarheimilis aldraðra í því sambandi.