Greiðslujöfnun fasteignalána felur á engan hátt í sér eftirgjöf á skuldum, heldur er um að ræða frestun afborgana að hluta. Til lengri tíma leiðir greiðslujöfnun til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta og því ekki sjálfgefið að fólk kjósi eða hafi hag af greiðslujöfnun.
Þetta skrifaði Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra í Morgunblaðið fyrir rúmri viku, nokkrum dögum eftir að lög um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga höfðu verið samþykkt.
Greiðslujöfnun gagnast ekki þeim heimilum sem vegna atvinnumissis og verðbólgu standa frammi fyrir mögulegu gjaldþroti, að því er formaður Félags fasteignasala, Ingibjörg Þórðardóttir, bendir á. Höfuðstóll lánanna hefur hækkað reglulega þrátt fyrir samviskusamlegar afborganir. Í mörgum tilfellum skulda einstaklingar töluvert meira í fasteign sinni, heldur en þegar gengið var frá kaupum á henni. Stór hluti skuldanna er ýmist vísitölutryggður eða gengisbundinn og jafnvel hvorttveggja.
Ingibjörg getur þess að enn sem komið er sé óljóst hvernig heimilunum muni reiða af. „Það er stutt síðan kreppan skall á en einstaklingar eru samt sem áður illa varðir í því ástandi sem nú ríkir. Fólk er farið að hringja og spyrja hvort það eigi að hætta að borga af eigninni og lýsa sig gjaldþrota. Ég hef sagt að það skuli ekki láta sér detta slíkt í hug. Viðkomandi gæti í kjölfarið varla eignast kött án þess að tekið yrði í honum lögtak. Eignastaða fólks er vöktuð í kjölfar gjaldþrots. Þess vegna ráðlegg ég því að reyna til þrautar að komast að samkomulagi um lengingu í lánum. En auðvitað er það skylda stjórnvalda að taka á þessum þrengingum sem á okkur dynja með öðrum hætti en að velta þeim yfir á húseigendur og fjölskyldur þessa lands.“
Kerfið þykir Ingibjörgu ekki mannsæmandi. „Það ætti að vera eins og í Bandaríkjunum. Þar má samkvæmt lögum ekki ganga nær fólki en sem nemur því sem bankinn hefur lánað. Þar er ekki hægt að elta fólk endalaust.“
Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um áform vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum segir meðal annars að fara eigi yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum. „Það ætti að breyta gjaldþrotalögunum þannig að þeir sem missa eignir sínar geti farið úr þeim án þess að skuldirnar hvíli áfram á þeim,“ leggur Ingibjörg áherslu á. Að bjóða einstaklingum að taka á leigu hús sín sem þeir geta ekki lengur greitt af þykir Ingibjörgu eins og verið sé að bjóða þeim ölmusu.