Segir góða stemningu á mótmælafundi

Mótmælafundur á Austurvelli.
Mótmælafundur á Austurvelli. Golli

„Fundurinn fór mjög vel fram og það var gríðarlega góð stemning á Austurvelli,“  sagði Hörður Torfason, skipuleggjandi fundarins, í samtali við blaðamann mbl.is að fundi loknum. 

Aðspurður sagðist hann afar ánægður með mætinguna enda hafi Austurvöllur verið troðfullur af fólki. Hann gaf lítið fyrir talningu lögreglunnar sem taldi aðeins um fjögur þúsund manns. 

Að mati Harðar eru mótmælafundirnir fólki mikilvægir þar sem fólk fái þar tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar og finna að þeir séu ekki einir í heiminum. Aðspurður segir hann næsta fund boðaðan að viku liðinni, þ.e. laugardaginn 6. desember kl. 15. „Að vanda spurði ég fundinn undir lok hans hvort þeir vildu hafa fund að viku liðinni og því var svarað einróma,“ segir Hörður.

Spurður hversu lengi standi til að boða vikulega mótmælafundi á Austurvelli segir Hörður það vera í höndum Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra.  Bendir hann á að áttunda sinn í dag hafi mótmælafundur krafist afsagnar núverandi stjórnar Seðlabankans, afsagnar núverandi stjórnar Fjármálaeftirlitsins og nýrra kosninga. Um leið og ráðamenn verði við þeim kröfum sé ekki lengur þörf á mótmælafundum. 

Hörður Torfason
Hörður Torfason Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert