Ýmis viðskipti bíða þess að bankaráð Landsbankans taki afstöðu til þeirra. Bankaráðið fjallaði um fyrirætlaða sölu Stoða á TM til Kaldbaks vegna þess hve stórt málið var. Bankastjórnin bar málið undir ráðið.
„Við mátum það svo að ekki væri hægt að taka tilboðinu,“ segir Ásmundur Stefánsson, formaður ráðsins, og staðfestir að bankaráð fjalli almennt ekki um samskonar mál af minni stærðargráðu.
Ásmundur segir að þar sem nýja bankaráðið hafi ekki setið lengi séu engar fastmótaðar starfsreglur til um svona mál. „En allar reglur tækju til þess að bankaráð skoðuðu slíka samninga, því ekki má gleyma því að þarna var um að ræða 42 milljarða. Slíkar reglur gætu þó ekki einvörðungu verið miðaðar við fjárhæðarmörk, þær hlytu að taka til ýmissa annarra þátta. Það eru reglur sem bankaráðið mun setja sér.“
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra segir að hann hafi ekki tekið afstöðu til ákvörðunar bankaráðs að hafna eignafærslu TM frá Stoðum til Kaldbaks. „Bankarnir eru reknir á viðskiptalegum forsendum af bankastjórnum og þær verða að geta tekið sínar viðskiptalegu ákvarðanir án pólitískra íhlutana.“