Það er skylda Sjálfstæðisflokksins að greiða fyrir því að fólki geti kosið á milli tveggja kosta í Evrópumálum, þ.e. hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða standa fyrir utan. Flokkurinn verður að fallast á að aðildarviðræður fari fram. Þetta segir Friðrik Sophusson, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra til margra ára.
„Það er ekki hægt að sjá hvaða kostur það er að fara inn fyrr en búið er að ræða við bandalagið og fá niðurstöðu í einhvers konar samningum um hvað sá kostur snýst," segir hann í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Friðrik tekur fram að hann taki ekki afstöðu til þess persónulega hvort Ísland eigi að vera í ESB fyrr en niðurstöður viðræðna liggja fyrir. „Ég held að það geti varla komið til greina að flokkurinn neiti að ræða við Evrópusambandið um hvaða kostir standa til boða. Mín afstaða er afskaplega skýr. Ég tel að við eigum að láta á þetta reyna."
Umræður fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins um kosti og galla ESB-aðildar eru að komast á fulla ferð. Fundarherferð hefst 12. des.