Vigdís talar til Breta 1. des.

Vigdís Finnbogadóttir
Vigdís Finnbogadóttir mbl.is/Ómar

„Margir Íslendingar hér í Lundúnum hafa mikinn áhuga á því að sýna samstöðu, þótt við séum erlendis, andspænis þeim vandamálum sem við þurfum að horfast í augu við, bæði hér í Bretlandi og heima á Íslandi. Það er ekki síst vegna þess hvernig bresk stjórnvöld hafa haldið á málefnum Íslands,“ segir Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Lundúnum, um fund nokkur hundruð Íslendinga og erlendra gesta í Cadogan Hall á mánudag.

„En fyrst og fremst erum við að minnast 90 ára afmælis fullveldisins. Langflestir þeirra sem munu sækja þessa hátíð á mánudaginn telja sig nánast knúna til að koma saman og sýna samstöðu.“ Sverrir Haukur fagnar komu frú Vigdísar Finnbogadóttur á fundinn.

„Okkur þykir mikill sómi að því að fyrrverandi forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir, sýni okkur þann velvilja að mæta og vera hér þetta kvöld. Hún er einkar vel til þess fallin sem fyrrverandi þjóðarleiðtogi að sameina Íslendinga á þessum tímamótum. Við reiknum með að upp undir þriðjungur gesta verði Bretar. Ræða Vigdísar verður mikilvæg í að mynda samstöðu og ég get ekki ímyndað mér annað en Bretar taki henni af miklum sóma.“

Sverrir Haukur leggur áherslu á mikilvægi sambands ríkjanna.

„Menn verða að hafa í huga að Bretland er mikilvægasta samskiptaland okkar á nánast öllum sviðum [...] þaðan koma fleiri ferðamenn en frá nokkru öðru landi,“ segir Sverrir Haukur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert