Aðför að fréttastofunni

Félag fréttamanna (FF) er afar ósátt við hvernig staðið hefur …
Félag fréttamanna (FF) er afar ósátt við hvernig staðið hefur verið að uppsögnum hjá RÚV. mbl.is/Ómar

Stjórn Félags fréttamanna (FF) hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna niðurskurðar á Fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þar segist stjórnin harma að „fjársvelti og vanhugsuð stefna stjórnvalda og Alþingis hafi nú leitt til þess að skera verður niður um fimmtung hjá Ríkisútvarpinu“. Telur stjórninn niðurskurðinn aðför að fréttastofunni.

Í yfirlýsingunni segir:

„Hluti þess sparnaðar felst í því að fimmtán frétta- og tæknimönnum var sagt upp störfum á Fréttastofu Ríkisútvarpsins á föstudaginn. Þetta er rúmlega tíundi hluti allra sem þar unnu. Jafnframt á að minnka framlag innlendra og erlendra fréttaritara. Að teknu tilliti til fyrri uppsagna á árinu er ljóst að geta fréttastofunnar til faglegrar og vandaðrar umfjöllunar er verulega sködduð. Álag á fréttamenn var mikið fyrir. Nú eiga enn færri að skila sömu afköstum sem óhjákvæmilega kemur niður á gæðum.“

Þá átelur stjórn FF yfirstjórn Ríkisútvarpsins fyrir láta niðurskurðinn koma með svo „sársaukafullum hætti niður á fréttastofunni“.

„Sameiginlega bera Alþingi, ríkisstjórnin og stjórnendur Ríkisútvarpsins fulla ábyrgð á því að veikja fréttastofuna. Henni  er gert nær ókleift að sinna lögbundnu og lýðræðislegu hlutverki sínu á erfiðum tímum.  Þetta gengur þvert á margendurteknar yfirlýsingar forsvarsmanna Ríkisútvarpsins, þ.m.t. fréttastjóra og útvarpsstjóra, um eflingu fréttastofunnar. Stjórn FF hvetur þá til að standa við orð sín og mótmælir uppsögnunum. Í þeim felst alvarleg aðför að fréttastofunni.“

Vísað er til hlutverks Ríkisútvarpsins.

„Hlutverk Ríkisútvarpsins er m.a. að veita útvarpsþjónustu í almannaþágu með þvi að „veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða“ sbr. 7. tölulið 3. gr laga nr. 61/2007. Sjaldan hefur verið meiri þörf á vönduðum og áreiðanlegum fréttum en nú. Þrátt fyrir þetta er máttur dreginn úr fréttastofunni með sparnaði og uppsögnum.  Stjórn FF telur þetta álíka vitlaust og að reka slökkviliðsmenn í miðjum eldsvoða.

Stjórn FF krefst nákvæmra og ítarlegra upplýsinga um það hverju á að breyta í fréttatímum og þáttum fréttastofunnar. Hvort á að leggja af eða þynna út þá fréttatíma og þætti sem fyrir eru. Vill Ríkisútvarpið að dregið sé úr gæðum rannsóknarvinnu, undirbúnings eða vinnslu fréttanna? Stjórn FF býður stjórn Ríkisútvarpsins ohf. að heimsækja í fyrsta sinn hina sameinuðu fréttastofu og kynna sér vinnuaðstöðu, verkferla og álag á fréttamönnum. Jafnframt skorar stjórn FF á stjórn Ríkisútvarpsins ohf. að þiggja laun samkvæmt kjarasamningi fréttamanna en afsala sér að öðru leyti stjórnarlaunum og láta þau renna til eflingar fréttastofunnar.

Stjórn FF skorar á æðstu stjórnendur Ríkisútvarpsins að lækka eigin laun verulega og deila kjörum með þeim sem undir þeim vinna. Ekki er hægt að réttlæta ofurlaun hjá almannaútvarpi í ríkiseigu á meðan fólk er rekið í sparnaðarskyni. Stjórn FF telur að auki augljóst að útvarpsstjóra ættu að duga einföld ráðherralaun til framfærslu. Muninn mætti nýta til að fjölga fréttamönnum og efla fréttastofuna. Að auki sér stjórnin ekki hvernig það samræmist almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins að það greiði bílakostnað útvarpsstjóra sem nemur a.m.k . launum eins fréttamanns.  Með sparnaði í yfirstjórn og launalækkun stjórnar og æðstu stjórnenda Ríkisútvarpsins mætti líklega draga allar uppsagnir á fréttastofunni til baka.

Að auki hafnar stjórn FF allri skerðingu á kjörum og samningsbundnum réttindum, þ.m.t. flatri  launalækkun. Slíkt stenst hvorki lög né nýundirritaðan kjarasamning.“


Í stjórn Félags fréttamanna sitja þau Aðalbjörn Sigurðsson, formaður félagsins, Karl Eskil Pálsson,  Ragnhildur Thorlacius,  Svavar Halldórsson og Þórhallur Jósepsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka