Leit er hafin að nýju að rjúpnaskyttu sem saknað hefur verið við Skáldabúðir í Laxárdal í Árnessýslu síðan í hádeginu í gær.
Að sögn Jóns Inga Sigvaldasonar, hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu tóku allt að 150 manns þátt í leitinni fram eftir degi í gær og fram til kl. 01 í nótt. Eftir það var leitarmönnum fækkað niður í um 50, enda afar erfitt að leita í myrkri og svæðið erfitt yfirferðar með mikið af giljum. Leitaði hópurinn til kl. 05 í nótt.
Leit hófst að nýju í birtingu um kl. 09.30 í morgun og tekur þyrla frá Landhelgisgæslunni þátt í leitinni.
Að sögn Jóns Inga er enn leitað á sama svæði, en leitarsvæðið afmarkast annars vegar af þjóðvegi og hins vegar að á. Segir hann búið að fara gróflega yfir svæðið, en núna standi til að fínkemba það.
Aðspurður segir Jón Ingi fimbulkulda hafa ríkt á svæðinu í nótt en þar var um -9 gráður. Segir hann rjúpnaskyttuna hafa verið vel búna til veiða, en að erfitt sé að þola jafnmikinn kulda og ríkti í nótt í lengri tíma. Vonir manna standi því til þess að hægt verði að finna skyttuna sem allra fyrst.
Allar björgunarsveitir í Árnessýslu
voru kallaðar út um miðjan dag í gær til að leita að manninum. Alls voru þá á sjötta tug
manna sem leituðu með aðstoð spor- og víðavangshunda, auk þess sem
þyrla Landhelgisgæslunnar til þátt í leitinni. Undir kvöld bættust
síðan fleiri björgunarsveitir frá höfuðborgarsvæðinu, Vík í
Mýrdal, Hellu og Hvolsvelli bættist svo í hópinn undir kvöld. Spor- og
leitarhunda aðstoða við leitina en svæðið er afar erfitt yfirferðar.