Gylfi Zoëga, prófessor, segir í grein sem birt er á vefnum voxeu.org, að Íslendingar eigi um tvo kosti að velja: afturhvarf til tíma haftakerfis eða áfram inn í Evrópusambandið. Landið verði að velja síðarnefnda kostinn vilji það koma í veg fyrir að vel menntað ungt fólk flytji frá landinu.
Í greininni fer Gylfi yfir aðdraganda bankahrunsins á Íslandi og afleiðingar þess. Hann segir að aðalorsök hrunsins sé að bankakerfið hafi vaxið þjóðinni yfir höfuð með tilheyrandi lánsfjárframboði, fasteignabólu og skuldsetningu.Seðlabankinn hafi brugðist við með því að hækka stýrivexti jafnt og þétt úr 5,3% árið 2003 í 15,25% árið 2007. Þetta hafi hins vegar ekki komið í veg fyrir þenslu og bóluna sem myndaðist á undan fallinu. Þvert á móti virðist aðgerðirnar hafa nært bóluhagkerfið.
„En það hlýtur að hafa verið öllum ljóst undir lokin að það (hagkerfið) var knúið áfram af skuldasöfnun sem ekki var hægt að viðhalda til lengdar og að fjármálakreppa var að verða óhjákvæmileg. Ísland hefði fengið á baukinn þótt umrótið á alþjóðamarkaði hefði ekki verið til staðar. En þótt margir bentu á þetta (þar á meðal Seðlabankinn sjálfur) var efnahagsstefnunni ekki breytt. Það voru greinilega djúpstæðar ástæður fyrir þessu aðgerðaleysi þótt hættan væri greinileg," segir Gylfi.
Hann bendir einnig á, að þegar ekki sé úr mjög mörgum að velja verði enn mikilvægara en ella, að velja þann hæfasta í hvert starf. Þessi hvati sé fyrir hendi í einkafyrirtækjum en það sama sé ekki hægt að segja um opinbera kerfið. Svo eitt dæmi sé tekið þá dragi það úr virkni og trúverðugleika Seðlabankans að skipa fyrrverandi stjórnmálamann í embætti formann bankastjórna.
„Aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, sem hafði í för með sér aðgang að innri markaði og frjálsu flæði fjármagns, án aðildar að sameiginlegum gjaldmiðli og ákvarðanatöku, gerði hagstjórn á Íslandi erfiða, jafnvel ómögulega. Seðlabankinn réði ekki við það gífurlega fjármagn, sem kom inn í landið," segir Gylfi.
„Aðild að Evrópusambandinu gæti leyst mörg þeirra vandamála, sem hér hefur verið lýst. Það gæti bætt ákvarðanatöku með því að fleiri kæmu að tilteknum ákvörðunum stjórnvalda. Aukið samband við þá, sem taka ákvarðanir í Evrópu, gæti haft í för með sér örvun, gagnrýni og samanburð sem bæti ákvarðanir. Framkvæmd laga kynni að batna. Upptaka evru myndi koma á stöðugleika í peningamálum og hafa í för með sér lægri vexti."