Ríkharður Jónsson knattspyrnukappi var gerður að heiðursborgara Akranesbæjar við hátíðlega athöfn í Akraneskirkju í dag, að viðstaddri bæjarstjórn og forsetahjónunum Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit Moussaieff.
Að sögn Tómasar Guðmundssonar, verkefnastjóra Akranesstofu, var fjölskylda Ríkharðs og vel flestir þingmenn kjördæmisins viðstaddir.
Tómas, sem skipulagði athöfnina, segir að bæjarstjórn Akranesbæjar hafi ákveðið á fundi sínum 9. nóvember sl. að Ríkharður Jónsson skyldi gerður heiðursborgari fyrir framlag sitt til íþrótta og menningarmála í bænum.
„Eins og fram kom í ræðu Gunnars Sigurðssonar, forseta bæjarstjórnar, tengir fólk Ríkharð við fótbolta og svo fótbolta við Akranes. Ríkharður hefur haldið á lofti nafni Akranesbæjar sem fótboltabæjar og það hefur hefð skapast í kringum hann,“ segir Tómas.
Ríkharður fékk viðurkenningarskjal og táknrænan verðlaunagrip fyrir framlag sitt í þágur Akranesbæjar, utan hans og innan, að sögn Tómasar.
„Þeir eru býsna margir sem hafa fetað í fótspor hans. Hann er frábær fyrirmynd fyrir íþróttamenn og er vel að þessum titli kominn. Það kom skýrt fram í dag að fólk fagnaði þessum viðburði og þeim hjónum. Ríkharður talaði um konu sína Hallberu Leósdóttur og kvaðst ekki síst eiga það henni að þakka hvað hann hefði náð miklum árangri, bæði sem þjálfari og sem leikmaður,“ sagði Tómas.