Á sama tíma og allar gáttir opna fyrir umræður í Sjálfstæðisflokknum um hvort framtíð Íslands sé betur borgið í Evrópusambandinu en utan þess, setja heildarsamtök atvinnurekenda af stað könnun meðal aðildarfyrirtækja um hvort samtökin eigi að beita sér fyrir aðildarviðræðum við ESB.
Hver svo sem niðurstaðan verður er engum blöðum um það að fletta að hafin er söguleg atburðarás og ekki verður aftur snúið. Átökin sem komin eru upp á yfirborðið í SA vegna andstöðu forystu útgerðarinnar endurspegla að nokkru þær deilur sem margt bendir til að muni eiga sér stað á landsfundi sjálfstæðismanna 29. janúar-1. febrúar.
Sjálfstæðismenn búa sig undir mikla þátttöku í Evrópuumræðunni fram að landsfundi en tíminn er mjög naumur. Evrópunefndin, sem Kristján Þór Júlíusson formaður og Árni Sigfússon varaformaður eru yfir, hefur verkstjórnina með höndum. Sjö vinnuhópar fjalla um stærstu álitaefnin. Jafnhliða er þegar hafin mikil Evrópuumræða í málefnanefndum, um áhrif af inngöngu í ESB á einstaka málaflokka. Þá eiga menn von á að kostir og gallar ESB-aðildar verði ræddir á vettvangi flokksfélaga, sem eru kjarninn í flokknum. Þau eru hátt í 200 talsins og kjósa fulltrúa á landsfund.
Fæstir reikna með að ein klár niðurstaða verði fengin fyrir landsfundinn. Aðeins þar verði málið leitt til lykta. Verkefnisstjórnin gæti því þurft að skila af sér tveimur nefndarálitum. „Ég sé ekki að sjónarmið hörðustu Evrópusinna og hörðustu Evrópuandstæðinga í Sjálfstæðisflokknum verði samræmd, segir heimildarmaður.
Menn draga ekki dul á að ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að hart verði deilt um Evrópumálið á landsfundinum. Fram hafi komið að undanförnu að bæði stuðningsmenn ESB-aðildar og andstæðingar séu margir mjög harðir í sinni afstöðu en fæstir viti hver stærðarhlutföll fylkinganna eru. „Það geta orðið mjög harkalegar umræður en ég tel ekki líklegt að þær leiði til klofnings. Menn muni frekar sættast á að vera áfram ósammála um þetta,“ segir sjálfstæðismaður sem vel þekkir til.