Félag fréttamanna (FF) fordæmir uppsagnir á fréttasviði Ríkisútvarpsins nú um mánaðamótin, að því er fram kemur í yfirlýsingu samtakanna.
Segir þar að á almennum fundi félagsins í kvöld hafi þess verið krafist að uppsagnirnar yrðu dregnar til baka:
„Nú, þegar aldrei hefur verið nauðsynlegra að halda úti öflugri fréttaþjónustu er ráðist að grunnstarfsemi- og lögbundnum skyldum Ríkisútvarpsins með uppsögnum. Fundurinn harmar skilningsleysi útvarpsstjóra á hlutverki RÚV og afþakkar framvegis fréttalestur hans. Þá er þess krafist að hætt verði við áform um að leggja niður svæðisútsendingar Ríkisútvarpsins. Fundurinn hafnar alfarið boðuðum launalækkunum almennra starfsmanna undir hótun um brottrekstur.“