Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í opnu bréfi til Norðmanna, sem Dagsavisen birti fyrir helgi, að Íslendingar hafi sterka tilfinningu fyrir sögunni og þeir gleymi ekki vinargreiða þegar mikið liggur við.
„Þegar náttúruhamfarir hafa dunið yfir Ísland, líkt og eldgosið í Vestmannaeyjum 1973, hafa margar vinarþjóðir brugðist hratt við og stutt okkur af örlæti og við höfum einnig reynt að rétta öðrum hjálparhönd á örlagatímum. Þegar við höfum nú lent í hamförum, sem eru af mannavöldum, er það hughreysting að finna, að við njótum enn þessa stuðnings," segir Geir m.a.
Hann segir að fjármálakreppan nái til alls heimsins og Íslendingar viti að erfiðleikar séu víða og ríkisstjórnir beri fyrst og fremst ábyrgð á að gæta hagsmuna eigin þegna.
„Þakklæti okkar Íslendinga í garð vinaþjóða okkar er því enn meira og það eykur okkur bjartsýni um að breið samstaða náist um aðgerðir til að að stöðva þessa heimskreppu," segir Geir m.a.