Það er þjóðin sjálf, sem mun taka hina endanlegu ákvörðun um hvort Ísland gengur í Evrópusambandið, sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á fundi Heimssýnar í dag. Lykilorusta í þeirri baráttu verður háð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok janúar.
„Þá kemur í ljós, hvort Sjálfstæðisflokkurinn stendur enn traustum fótum í þeim jarðvegi, sem hann er sprottinn úr... eða hvort flokkurinn hefur týnt sjálfum sér. Mér dettur ekki í hug eitt andartak, að svo sé. Mér dettur ekki annað í hug en að á landfundinum í lok janúar muni hinn þögli meirihluti sjálfstæðismanna af landinu öllu rísa upp og standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og full og óskoruð yfirráð yfir öllum auðlindum hennar," sagði Styrmir og bætti við að ekki væri hægt að berjast fyrir betri málstað:
„Við skulum taka höndum saman og hefja þá miklu sókn, sem tryggir að
Sjálfstæðisflokkurinn standi vörð um rætur sínar og sögu, hefðir sínar
og hugsjónir og glæsilega arfleið liðins tíma á landsfundinum í
janúarlok."
Styrmir sagði, að spurningin um Ísland og Evrópusambandið sé mjög einföld og snúist um það, hvort Íslendingar vilji afhenda Evrópusambandinu yfirráð yfir auðlindum landsins.
„Hún snýst um það hvort hinar formlegu og endanlegu ákvarðanir um nýtingu auðlindarinnar í hafinu í kringum Ísland verði teknar á Íslandi eða í Brussel. Hún snýst um það, hvort óðalsbóndinn í Brussel, svo vitnað sé óbeint til orða Bjarna Benediktssonar, á að lokum að taka ákvarðanir fyrir okkur í veigamestu málum.
Þar er engin millileið til. Við heyrum aftur og aftur að það sé hægt að semja við Evrópusambandið um þetta og hitt. Það má vel vera að það sé hægt að semja en þeir samningar eru alltaf tímabundnir. Þess vegna sögðu Norðmenn nei í nóvember 1994. Undanþágur eru aldrei varanlegar - alltaf tímabundnar," sagði Styrmir og spurði hvers vegna aðildarsinnar horfist hvorki í augu við afsal yfirráða yfir auðlindum Íslands eða Maastrichtskilyrðin fimm.
„Forsenda þess, að þjóðin geti tekið sínar ákvarðanir er að hún fái réttar upplýsingar. Hvers vegna reyna talsmenn aðildar að Evrópusambandinu að fela staðreyndir fyrir fólki?"