Meira þarf til að bjarga heimilunum

mbl.is

Neytendasamtökin telja rétt að skoða hvort ekki beri að stórhækka vaxtabætur og fella alveg niður eða lækka verulega verðbætur á lánum. Í nýjum pistli á heimasíðu Neytendasamtakanna segir formaðurinn að sú kreppa sem við berjumst við nú sé miklu dýpri en við höfum áður þekkt. Ríkisstjórnin hafi kynnt tímabundnar aðgerðir til bjargar heimilunum en enn sé beðið eftir raunverulegum aðgerðum.

Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna segir að þær aðgerðir sem stjórnvöld hafi fyrst og fremst gripið til sé frysting á myntkörfulánum og greiðslujöfnun vegna verðtryggðra lána. Með báðum leiðum sé dregið úr greiðslubyrði tímabundið og það sem eftir standi leggist við höfuðstólinn. Því verði greiðslubyrðin þyngri seinna en heimilt sé að lengja lánstímann. 
 
„Stjórnvöld hafa líka boðað ráðstafanir til að lækka dráttarvexti en enn bíðum við eftir raunverulegum aðgerðum. Höfum í huga að nú þegar greiðum við óheyrilega háa dráttarvexti sem bitna illilega á heimilum í vanskilum. En gleymum ekki að lækkun dráttarvaxta knýr vexti á ýmsum neyslulánum niður, þar á meðal yfirdráttarvexti og vexti vegna greiðsludreifinga og raðgreiðslna. Einnig hafa stjórnvöld tilkynnt um að þegar ný lög um innheimtustarfsemi taka gildi um áramót verður notuð heimild til að setja hámark á það gjald sem innheimtuaðilar geta krafist. Loks má nefna að milda á innheimtuaðgerðir.
 
Enn er verið að skoða, allavega eftir því sem ég best veit, hvort heimila eigi neytendum að leysa út viðbótarlífeyrissparnað sinn svo þeir geti lækkað skuldir sínar. Vissulega þyrfti að fórna sparnaði til efri áranna en í staðinn gæti verið gott að losna við dýru neyslulánin. Þetta gæti því verið góður kostur fyrir suma og sjálfsagt að heimila það,“ segir formaður Neytendasamtakanna.

Hann segir þó ljóst að þessar aðgerðir dugi engan veginn til að bjarga þeim mikla fjölda heimila sem lenda í verulegum vandamálum vegna atvinnuleysis eða verulegrar lækkunar launa. Miðað við verðlagsþróun muni enn fleiri heimili lenda í vandamálum enda hafi vaninn við greiðslumat verið sá að tefla á tæpasta vað.
Þá segir formaður Neytendasamtakanna stöðu margra heimila nú með þeim hætti að mikil þörf sé á löggjöf um greiðsluaðlögun.

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka