Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á ráðstefnu Útflutningsráðs í dag, að óvarlega hefði verið talað í upphafi bankakrepunnar og dýr orð borist á æðstu staði í öllum ríkjunum í kringum Ísland og vakið furðu, því grannþjóðum kom það svo fyrir sjónir að Íslendingar teldu sig ekki þurfa að lúta leikreglum.
„Og er ekki einmitt hugsanlegt að það hafi sést utanfrá á versta tíma viðhorf sem ráðið hefur of miklu í stjórnmálum og alþjóðasamskiptum Íslands á síðustu árum, en var sannarlega ekki hugmynd þeirra sem kusu fullveldið 1918: Nefnilega það viðhorf að við eigum rétt á því að fara ekki alveg að settum reglum, að við eigum rétt á einhvers konar sérmeðferð, styttri leið og hagstæðari samningum en aðrir. Að við eigum að fá allt fyrir ekkert, og að almennar leikreglur séu aðallega til viðmiðunar - fyrir aðra.Kannski er þetta - að víkja megi settum reglum til hliðar til þægindarauka - í hnotskurn einn helsti viðhorfsvandi íslensks samfélags og á sinn þátt í kreppunni?" sagði Ingibjörg Sólrún.
Hún sagði einnig að það væri sitt mat, að tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar hafi reynst of veikburða og að Ísland muni slást í hóp þeirra Evrópuríkja sem nú beita sér fyrir því að henni verði breytt. Þá sagðist hún fagna fyrirhuguðum neyðarsjóði evrópskra innistæðueigenda sem Ísland muni greiða í, líkt og önnur ríki. Í fyllingu tímans kunni sá sjóður að nýtast til að mæta þeim ábyrgðum, sem Ísland muni nú undirgangast.
Ingibjörg Sólrún sagði á fundinum, að margir beri ugg í brjósti vegna nýju reglanna um gjaldeyrisviðskipti sem Alþingi samþykkti aðfararnótt föstudags.
„Ég minni á að með reglunum eru höftum sem ríkt hafa á viðskiptum með vörur og þjónustu undanfarnar vikur aflétt, en eftir standa hins vegar hindranir í flutningi fjárfestingatekna. Þetta eru ekki létt spor að stíga, en þau eru nauðsynleg og þau munu ekki vara til langframa. Raunar eru reglurnar aðeins til þriggja mánaða og verða þá endurskoðaðar. Við búum að þessu leyti við aðhald að utan því Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn mun ekki veita okkur lánafyrirgreiðslu nema þessum takmörkunum verði létt svo fljótt sem verða má, það er þegar gengi hefur náð jafnvægi á ný," sagði Ingibjörg.
Hún bætti við, þær aðgerðir sem Íslendingar hafa gripið til í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn séu mun líklegri til að heppnast ef Íslendingar setja fram skýrt það stefnumið að sækja um aðild að Evrópusambandinu.