Frumvarp menntamálaráðherra um stöðu RÚV á auglýsingamarkaði var ekki rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins í dag, að sögn Arnbjargar Sveinsdóttur, formanns. Málið var ekki lagt fram á fundinum og verður ekki lagt fyrir þingflokkinn fyrr en á miðvikudaginn, þó svo að stefnt hafi verið að umræðum um þetta mál í dag.
Þingflokkur Samfylkingarinnar mun funda um frumvarpið á morgun, að sögn Lúðvíks Bergvinssonar sem gegnir formennsku í þeim þingflokki.
Fyrir helgi boðaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra frumvarp um takmörkun á þátttöku RÚV á auglýsingamarkaði. Tilgangurinn er sá að auðvelda einkareknum fjölmiðlafyrirtækjum að standa undir arðbærum rekstri. Nefnd á vegum ráðherrans hefur miðað við að lagabreytingin dragi úr umsvifunum en að um leið verði reynt að bæta RÚV þennan tekjumissi upp.