Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, er nú að ræða við nokkra tugi manna, sem ruddust inn í anddyri Seðlabankans og krafðist þess að fá að ræða við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra. Reynir lögregla að fá fólkið til að yfirgefa anddyrið en er jafnframt við öllu búin.
Hluti fundargesta á útifundi, sem var á Arnarhóli í dag, hélt að fundinum loknum að Seðlabankanum. Talið er að 50-100 manns hafi farið inn í anddyri bankans en þar var talsverður viðbúnaður lögreglu; eru um tveir tugir lögreglumanna þar í óeirðabúningum. Hefur fólkinu verið sagt að fari það ekki út með góðu verði hugsanlega beitt piparúða til að rýma húsið.
Fólkið hefur neitað að fara út úr bankanum „fyrr en krullhærði maðurinn fer líka," eins og einn úr hópnum sagði. Flestir í hópnum eru ungir að árum.