Tæknimenn á Ríkisútvarpinu hittust á fundi kl. 19 í kvöld. Ekki hefur fengist uppgefið um hvað var rætt á fundinum, sem er nýlokið. Fundurinn hafði ekki áhrif á útsendingu sjónvarps og útvarps í kvöld. Skv. heimildum mbl.is hafa Starfsmannasamtök RÚV boðað til fundar kl. 12:45 á morgun.
Í síðustu viku var tilkynnt var um 700 milljón kr. niðurskurð hjá RÚV. 45 starfsmönnum var sagt upp þar af 21 starfsmanni og 23 verktökum.
Ákvörðun var tekin um hlutfallslegan niðurskurð á öllum sviðum en hann bitnar harðast á fréttasviði þar sem launakostnaður vegur mun þyngra þar en á öðrum sviðum.
Eigið fé RÚV er nú um 31 milljón króna. Á næstu 12 mánuðum er áætlað að spara um 700 milljónir, þar af um 550 milljónir með almennum niðurskurði. Þá á að spara 150 milljónir króna með tímabundinni launalækkun frá áramótum.
Um er að ræða tímabundna ráðstöfun, til 12 mánaða eins og kynnt var á starfsmannafundi. Helstu yfirmenn, þeir sem hæst hafa launin, taka á sig 8-11% launalækkun. Þeir sem þar koma á eftir í launum sæta 6-7% launalækkun en sá hópur er langfjölmennastur. Þeir sem lægst hafa launin sleppa við launaskerðingu. Miðað er við að laun verði lækkuð frá og með næstu áramótum. Með þessu eiga að sparast 150 milljónir króna á ársgrundvelli.