Starfsmenn Rúv boða til funda

Tæknimenn á Ríkisútvarpinu hafa boðað til fundar sín á milli kl.19 kvöld til að ræða hvernig staðið var að málum í uppsögnum í vikunni, en mikillar ólgu gætir meðal starfsmanna vegna þeirra. Aðrar deildir innan Rúv hafa verið hvattar til að halda einnig fundi og mun fréttadeildin hittast að loknum kvöldfréttum.

Að sögn Egils Jóhannessonar, tæknimanns, mun fundur þeirra í kvöld ekki hafa áhrif á útsendingu sjónvarps og útvarps, en hann segist ekki geta sagt til um framhaldið. „Það er búið að halda fund þar sem var skýrt út fyrir okkur hver staðan væri frá sjónarhóli stjórnenda og í framhaldi af því ákváðum við sjálfir að halda fund okkar á milli og erum búin að hvetja aðrar deildir til að gera slíkt hið sama.“

Uppsögn Jan Murtomaa tæknimanns til margra ára er sérstaklega umdeild og hafa sumir starfsmenn Rúv kallað eftir samstöðu um að mótmæla henni. Egill segir engar sérstakar aðgerðir hafa verið boðaðar, en honum heyrist á hljóðinu innanhúss að flestar deildir ætli sér einnig að kalla til fundar sín á milli.

„Okkur langar til að funda um ástandið því það snýr beint að okkur. Það er svo margt uppi á borðinu og margir furða sig á því hvernig hægt er að láta starfsmenn á gólfinu taka allt höggið. Svo er búið að gefa í skyn að við eigum að lækka í launum í miðri kjarabaráttu okkar, þar sem lægst launaða fólkið í húsinu dregur áfram skútuna.“ Hann tekur þó fram að fundaboðunin sé ekki hugsuð sem hótun við stjórnendur heldur einungis til að starfsmenn geti rætt málin á eigin forsendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka