Sýknaður af ákæru fyrir peningafals

Falsaðir peningaseðlar.
Falsaðir peningaseðlar. mbl.is/Júlíus

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tvítugan karlmann af ákæru fyrir að falsa peningaseðla. Samkvæmt ákæru voru seðlarnir notaðir til að greiða fyrir pítsur, sem sendar voru heim til mannsinss, en dómari taldi ekki sannað, að maðurinn  hefði borgað með seðlunum. Má ráða af niðurstöðunni að um handvömm lögreglu hafi verið að ræða.

Fram kemur í dómnum, að pítsusendill fór heim til unga mannsins með tvær pítsur og gos, sem hann pantaði. Reikningurinn var upp á rúmar 6000 krónur.  Maðurinn greiddi með tveimur 5000 króna seðlum  og að sögn pítsusendilsins vildi hann ekki fá til baka.

Sendillinn sagði að þegar hann kom aftur á veitingastaðinn hafi hann gert sér grein fyrir því að seðlarnir voru óvenjulegir og virtust vera prentaðir í venjulegum prentara. Hann lét veitingastjórann vita sem kallaði lögreglu til.

Sá sem pítsurnar keypti kom með margar skýringar á því hvernig hann hefði fengið seðlana. Hann sagðist ýmist hafa fengið þá í vinning í spilavíti eða fengið þá þegar hann seldi farsíma. Heima hjá manninum fannst bréf frá fanga á Litla-Hrauni þar sem lýst var ráðagerð um það að falsa peningaseðla og kaupa fyrir þá fíkniefni af einhverjum Litháum og hagnast um milljónir á fyrirtækinu.

Dómurinn segir hins vegar í niðurstöðu sinni, að lögreglumenn hafi farið í matsöluna og tekið við seðlunum úr hendi verslunar- eða varðstjórans þar. Sá maður hafi aldrei verið yfirheyrður í málinu og því verði ekkert fullyrt um það hvernig seðlar þessir voru geymdir fram að því að þeir voru afhentir lögreglunni og þá hvort þeim hafði verið haldið aðgreindum frá öðrum seðlum. Ekki sé óhætt að slá því föstu að seðlarnir, sem málið snúist um, séu þeir ákærði maðurinn afhenti sendlinum í umrætt sinn. Því beri að sýkna manninn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert