Þorvaldur Gylfason, prófessor, sagði á málþingi á vegum Alþjóðamálastofnunar og Samtaka iðnaðarins í dag, að bumbusláttur þeirra, sem ali á ótta við framsal fullveldis, sé iðulega ekki annað en skálkaskjól manna, sem skelfast að missa illa fenginn spón úr aski sínum.
„Við þurfum að deila fullveldi okkar með öðrum Evrópuþjóðum einmitt til að losna undan ofríki innlendra sérhagsmuna," sagði Þorvaldur.
Hann sagði, að gróft á litið jafngildi aðildin að Evrópska efnahagssvæðinu tveimur þriðju hlutum af fullri aðild að Evrópusambandinu.
„En þriðjungurinn, sem á vantar, skiptir þó miklu máli. Það, sem á vantar, er einkum þrennt auk áhrifanna, sem við höfum eðlilega ekki á sambandið svo lengi sem við stöndum utan þess. Í fyrsta lagi myndu Íslendingar fá að njóta lægra matarverðs og kaupmáttur heimilanna ykist eftir því. Í annan stað yrðum við áskrifendur að samkeppnisstefnu Evrópusambandsins, og þá fengjum við um leið aðgang að sameiginlegu samkeppniseftirliti gegn okri, og íslenzk fákeppni þarf á auknu aðhaldi og eftirliti að halda. Í þriðja lagi myndu lægri vextir fylgja upptöku evrunnar, og þá yrði verðtrygging óþörf sem meginregla í innlendum fjármálasviðskiptum. Verðtryggingin er hluti þess kostnaðar, sem fylgir því að halda krónunni sem lögeyri á Íslandi. Krónan birtist nú vaxandi fjölda fólks og fyrirtækja sem kúgunartæki eða refsivöndur í höndum ríkisstjórnar og Seðlabanka, svo mjög sem stjórnvöldum hafa verið mislagðar hendur í peningamálum," sagði Þorvaldur meðal annars.