Engar rispur á ugganum sem skemmdist

Miklir áverkar voru á haus hvalsins sem rak á Reynisfjöru.
Miklir áverkar voru á haus hvalsins sem rak á Reynisfjöru. Jónas Erlendsson

Grunur leikur á að langreyðurin, sem fannst rekin á Reynisfjöru í síðustu viku, hafi orðið fyrir jafnvægisugganum á Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi 12. nóvember s.l. og drepist við það. Óvenjulegir áverkar sáust á hausi hvalhræisins og var talið mjög líklegt að hvalurinn hefði drepist eftir árekstur við skip. Ugginn varð fyrir miklu höggi og skemmdist svo að hann varð óvirkur. Þó sáust engar rispur á ugganum eftir höggið.

Hafsteinn Hafsteinsson, sem er einn þriggja skipstjóra á Herjólfi, staðfesti að ein hugmyndin sem menn hafa um ástæður þess að jafnvægisugginn skemmdist sé að skipið hafi rekist á hval. Þetta sé þó ósannað. Hvalurinn sem fannst á Reynisfjöru með áverka ýti þó undir þessa hugmynd. Athuga þyrfti hvort rek hræsins austur á Reynisfjöru gæti staðist miðað við veðuraðstæður. Hafsteini kvaðst það alveg mögulegt miðað við vestanáttir sem voru á þessum tíma.

Jafnvægisuggar eru á báðum síðum Herjólfs. Þeir eru settir út á siglingu og standa þá um tvo metra út frá hvorri síðu. Hafsteinn var ekki sjálfur um borð þegar jafnvægisugginn skemmdist 12. nóvember. Hann sagði að þegar skipið átti eftir um 45 mínútur til Vestmannaeyja og var statt norðan við Þrídranga, hafi menn fundið óvenjulegt högg. Yfirvélstjórinn hafi strax áttað sig á því að jafnvægisugginn stjórnborðsmegin var hættur að virka. Hann stýrist af gíróskópi og er hægt að fylgjast með virkni hans á mælum. Í Vestmannaeyjum er lagst að bryggju með stjórborðshlið en það var ekki hægt í þetta sinn og skipinu lagt að með bakborðshliðina. Kallað var á kafara til að vinna við jafnvægisuggann. Þá tókst að draga uggann inn og taka úr sambandi. Hafsteinn sagði haft eftir kafaranum að greinilega hafi orðið mikil átök þegar ugginn skemmdist. Samt sáust engar rispur á málningunni, eins og búast hefði mátt við ef ugginn hefði rekist í eitthvað hart. Þá datt mönnum í hug að ugginn hefði rekist í hval.

Þegar Herjólfur var á leiðinni frá Vestmannaeyjum 18. nóvember og var kominn norður af Þrídröngum, eftir 45 mínútna siglingu, sá útkíkkið (vaktmaður) eitthvað á reki.

„Fyrst veltu menn því fyrir sér hvað bátur væri að gera þarna ljóslaus. Þegar nær dró héldu menn að þetta væri gúmbátur sem hefði fallið af skipi. Svo datt mönnum í hug að radarhlíf, kúla, hefði fallið af varðskipi eða herskipi. Þetta var svo belglaga. Loks sáum við að þetta var hvalhræ. Það maraði mikið í kafi en gasfylltur belgur, hvort það voru innyfli eða magabelgur, um tveir metrar í þvermál var það sem við sáum fyrst," sagði Hafsteinn. „Þegar ég sá þetta hvalhræ á mynd í Mogganum og miðað við lýsingu á hræinu datt mér í hug hræið sem við sáum þann 18. nóvember. Ég hringdi í skipstjórann sem var um borð þegar ugginn skemmdist og þá kom í ljós að þetta gerðist nánast á sömu slóðum og þar sem við sáum hræið sex dögum síðar."

Hafsteinn kvaðst hafa velt því fyrir sér hvers vegna þeir sáu ekki hræið á leiðinni til Eyja fyrr um daginn. Hann sagði að talið sé líklegt að hvalurinn hafi sokkið við áreksturinn en svo myndast gast í iðrum hans sem fleytti honum upp á yfirborðið. Hvalurinn hafi verið nýkominn úr kafi þegar þeir á Herjólfi sáu hann, næstum á sama stað og áreksturinn varð sex dögum fyrr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert