„Við viljum bara réttlæti“

Mótmælendur við Seðlabankann nú síðdegis.
Mótmælendur við Seðlabankann nú síðdegis. mbl.is/Árni Sæberg

„Við vildum Davíð [Oddsson seðlabankastjóra] burt. Mjög einföld krafa og það er ekkert hlustað á þessa kröfu. 90% þjóðarinnar vildi hann burt. Gæti það verið skýrari krafa,“ sagði Guðjón Heiðar Valgarðsson, einn mótmælenda í samtali við mbl.is.

„Við kusum hann ekki sem seðlabankastjóra, hann var bara valinn,“ segir Guðjón sem krefst þess að stjórnvöld sem og aðrir í þjóðfélaginu fari að sýna ábyrgð. 

Tæplega 100 mótmælendur, sem tóku þátt í þjóðfundinum sem fram fór við Arnarhól í dag, fór inn í anddyri Seðlabankans eftir fundinn. Á bilinu 40 til 50 lögreglumenn vörnuðu þeim inngöngu. Mótmælendurnir eru nú farnir út.

Guðjón segir að mótmælendurnir krefjist breytinga. „Kerfið er gallað og það þarf að finna nýjar leiðir,“ segir hann. „Við ætlum ekki að beita ofbeldi. Við viljum bara réttlæti.“

Aðspurður segir Guðjón að mótmælendurnir hafi rætt málin í mestu friðsemd við lögregluna. Mótmælendur hafi samþykkt að yfirgefa svæðið ef lögreglan hörfaði, og var það gert.

„Geir Jón [Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu] kom og spjallaði við okkur, og ræddi málin á rólegum nótum. Hann er að vinna sína vinnu eins og allir þessir lögreglumenn. Þeir eru settir í erfiða stöðu og það gera sér allir grein fyrir því. En þeir verða að lofa okkur því að vera ekki að beita okkur ofbeldi,“ segir Guðjón.

„Það er allt á suðupunkti í þessu samfélagi og það eru allir meðvitaðir um það. Aðgerðir eru því óumflýjanlegar og þær gerast af sjálfu sér þessa dagana. Þetta var ekki skipulögð aðgerð. Þarna var bara fólk sem var brjálað og vildi fá rödd sína heyrða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert