14 ára piltar brutust inn og stálu bílum

Akranes.
Akranes. www.mats.is

Þrír fjórtán ára gamlir piltar hafa játað, að hafa brotist inn í bílaverkstæði á Akranesi um helgina og stolið tveimur bílum, sem stóðu utan við verkstæðið. Annar bíllinn fannst skömmu síðar mannlaus og mikið skemmdur en akstur hins bílsins var stöðvaður í bænum og voru piltarnir þá í honum. Þeir höfðu um helgina m.a. ekið til Reykjavíkur.

Lögreglan fékk í gærmorgun tilkynningu um að brotist hefði verið inn í bílaverkstæðið Ásinn við Kalmannsvelli á Akranesi. Þar hafi rúða verið brotin í glugga og  farið inn og stolið bíllyklum.  Þá kom einnig í ljós að tveggja bíla, sem staðið höfðu utan við verkstæðið, var saknað.

Annar bíllinn, af Subarugerð, fannst skömmu síðar á Faxabraut mikið skemmd. Síðar um daginn sáu lögreglumenn til hins bílsins, jeppa, við bensínstöð N1 við Þjóðbraut.  Þegar lögreglumennirnir komu að hlupu þrír piltar frá bifreiðinni.  Lögreglumaður hljóp þá uppi og voru þeir færðir á lögreglustöð.

Þarna var um að ræða þrjá 14 ára stráka sem viðurkenndu í viðtölum við lögreglu og félagsmálayfirvöld að vera viðriðnir málið. Einn pilturinn játaði að hafa brotist inn í bílaverkstæðið að kvöldi laugardagsins og að hafa stolið þar öllum bíllyklum sem hann fann.  Hann hafi síðan valið sér bíl utan við verkstæðið og ekið á brott.  Hann hafi náð í félaga sinn og boðið honum í bíltúr.  Þeir hafi m.a. ekið um sveitirnar sunnan Skarðsheiðar.  Að því búnu hafi þeir farið til Akraness og náð i þriðja félagann og boðið honum í bíltúr.  Ökuferðinni lauk þegar bíllinn lenti á steini við Faxabraut. 

Tveir piltanna fóru aftur að bílaverkstæðinu  á sunnudeginum og tóku þá traustataki jeppa af Cherokee gerð.  Þeir óku honum í Borgarnes og síðan heim aftur þar sem þeir náðu í þriðja félagann.  Þá var stefnan sett á höfuðborgarsvæðið þar sem þeir komu m.a. við í Smáralindinni. Síðan óku þeir heim aftur.

Eftir að hafa farið um fáfarna vegi þar sem allir félagarnir fengu að prófa að aka jeppanum skildu þeir hann eftir á milli rútubíla við bensínstöðina við Þjóðbraut.  Þar vor þeir svo gripnir af lögreglu þegar þeir vitjuðu bílsins á mánudeginum.

Fram kom hjá piltunum sem allir eru fæddir árið 1994 að sá sem frumkvæðið átti og braust inn í bifreiðaverkstæðið hafi annast aksturinn að mestu leyti.

Félagsmálayfirvöldum verður afhent málið til meðferðar, en piltarnir eru ekki sakhæfir samkvæmt íslenskum lögum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka