Ánægja með stjórnarandstöðu vex

Flestir telja að stjórnarandstaðan myndi hvorki standa sig verr né …
Flestir telja að stjórnarandstaðan myndi hvorki standa sig verr né betur en ríkisstjórnin í stjórn efnahagsmála Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fleiri eru nú ánægðir með störf stjórnarandstöðuflokkanna en voru í upphafi hausts miðað við niðurstöður Þjóðarpúls Gallups í desember, sem kannaði hvort fólk teldi að stjórnarandstaðan gæti náð meiri árangri en ríkisstjórnin í stjórn efnahagsmála.

Tæpur fjórðungur landsmanna segist ánægður með störf stjórnarandstöðunnar, sem er sex prósentustiga hækkun frá því í september.  Hlutfall þeirra sem segjast óánægðir með störf stjórnarandstöðunnar hefur hinsvegar líka hækkað á sama tímabili, því 35% segjast nú óánægð. 

Þegar spurt var að því hvort fólk teldi að stjórnarandstöðuflokkarnir myndu standa sig betur eða verr við stjórn efnahagsmála en núverandi stjórnarflokkar sögðu 28% að þeir myndu standa sig betur en 34% að þeir myndu standa sig verr.  Stærstur hluti svarenda, 38%, er þó á þeirri skoðun að stjórnarandstaðan myndi hvorki standa sig betur né verr en núverandi ríkisstjórn.

Fylgi Vinstri grænna hefur aldrei mælst hærra en nú og mælist hæst allra flokka í nóvember, eða 32%.  Litlu færri, eða 31% segja myndu kjósa Samfylkinguna. Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar hinsvegar verulega annan mánuðinn í röð og mælist nú aðeins 21% sem er sögulegt lágmark flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert