Búið er að taka niður auglýsingaspjöld þar sem ferðamenn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) voru boðnir velkomnir til „HALFPRICELAND“, sem útleggja má sem Ísland á hálfvirði. Auglýsingin fór fyrir brjóstið á mörgum og fjöldi kvartana barst flugstöðinni vegna hennar.
Þá hefur talsverð umræða skapast um auglýsinguna í bloggheimum og hafa margir lýst undrun sinni og vanþóknun.
Í auglýsingunni eru ferðamenn spurðir hvort þeir séu komnir til Íslands til að njóta náttúrunnar eða til að nýta sér gengismuninn. Þar eru ferðamenn jafnframt hvattir til að gera góð kaup í fríhöfninni.
Spjöldin, sem markaðsráð FLE setti up, hafa verið tekin niður að sögn Elínu Árnadóttur, forstjóra FLE. Þau stóðu aðeins uppi í nokkra daga að hennar sögn.
Það var bloggarinn Kjartan Jónsson sem bloggaði fyrst um auglýsinguna. Hann tók jafnframt myndina, sem hefur farið sem eldur um sinu í bloggheimum.