Bjarga á fyrirtækjunum

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna áætlun ríkisstjórnarinnar …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynna áætlun ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Kristinn

Nú liggur fyrir tólf liða áætlun um að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu. Verða m.a. stofnuð  sérstök eignaumsýslufélög á vegum bankanna sem hafi umsjón með eignarhlutum í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé.

1. Stjórnvöld gera bankaráðum hinna nýju banka að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiðið að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja.

2. Stofnuð verða sérstök eignaumsýslufélög á vegum bankanna sem hafi umsjón með eignarhlutum í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé.

3. Skipaður verðu óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka og skipar bankaráð umboðsmanninn. Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir eðlilegast að bankaráðin taki þessar ákvarðanir.

4. Við endurskipulagningu fyrirtækja verða valdar leiðir sem efla samkeppni eða hamla samkeppni minnst.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir að reglurnar verði að vera skýrar og að allir eigi aðgang að bönkunum hafi þeir áhuga á að kaupa fyrirtæki í fjárhagskröggum. Slá verði á tortryggnina. Geir H. Haarde segir bankana verða að taka ákvörðun um það sjálfir hvenær rétt sé að selja. Það geti verið skynsamlegt að bíða og selja fyrirtæki síðar.

5. Ríkisstjórnin mun liðka fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingasjóðs atvinnulífisins með þátttöku lífeyrissjoða, banka og annarra fjárfesta.

Ingibjörg segir ekki gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin setji fjármagn í endurreisnarsjóðinn heldur bankarnir, en  hún komi að atvinnuskapandi framkvæmdum. Vinna verði með sveitarfélögum svo framkvæmdum sé ekki ýtt úr vör á sama tíma.

6. Ríkisstjórnin hvetur til þess að í fjárfestingastefnu sinni taki endurreisnarsjóður m.a. tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja.

7. Stjórnin lýsir yfir vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum.

Forsætisráðherra segir ekkert því til fyrirstöðu að kröfuhafar eignist bankana alveg, en ekkert liggi fyrir um eignarhald þeirra á þessari stundu.

8. Fyrirtæki fá að gera upp í erlendri mynt á nýju ári.

9. Lífeyrissjóðir mega eiga íbúðir til langs tíma.

10. Áhersla verður lögð á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir.

11. Stjórnvöld ætla að beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga.

12. Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins fara yfir nýsettar reglur um gjaldeyrishömlur sem ætla að styrkja gengi krónunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka