Viðskiptaráð telur mikilvægt að stjórnvöld skeri niður útgjöld til að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir frekar en að auka skattheimtu. Viðskiptaráð segir fjárhagsstöðu einstaklinga og heimila nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hækkun skatta.
Á vef Viðskiptaráðs segir að undanfarin ár hafi hið opinbera skilað afgangi í rekstri sínum enda hafi skatttekjur vaxið með miklum hraða. Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins sé ljóst að allir tekjustofnar hins opinbera muni dragast verulega saman og verg skuldastaða versna til muna. Samkvæmt bráðabirgðamati stjórnvalda sé áætlað að vergur kostnaður vegna innstæðutrygginga og endurfjármögnunar fjármálakerfisins nemi um 80% af landsframleiðslu. Að viðbættum kostnaði af auknum halla hins opinbera árið 2009 sé gert ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009.
„Samdráttur í skatttekjum og stórauknar vaxtagreiðslur munu því setja hinu opinbera verulegar skorður á næstu árum. Samkvæmt viljayfirlýsingu stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gert ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs, leiðrétt fyrir hagsveiflu, verði orðin jákvæð árið 2011 og í kjölfarið hefjist markviss niðurgreiðsla skulda. Aðhaldssamri stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum ber að fagna enda grundvallarþáttur í endurreisn hagkerfisins. Miðað við vænta hagþróun næstu ára liggur því fyrir að stjórnvöld hafa tvo kosti til að brúa þann fjárlagahalla sem þau standa frammi fyrir. Annað hvort þarf að skera niður útgjöld eða auka skattheimtu umtalsvert,“ segir á vef Viðskiptaráðs.
Ráðið telur mikilvægt að stjórnvöld velji fyrri leiðina. Minni umsvif hins opinbera myndu einnig draga úr fjárþörf þess og skapa mikilvægt athafnarými fyrir einkaaðila. Að lokum sé ekki fyrirséð hver áhrif skattahækkana yrðu við þær viðkvæmu aðstæður sem ríkja í efnhagslífinu. Hætt sé við að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar sem myndi þrengja skattstofna og mögulega draga úr heildarskatttekjum á endanum. Í ljósi þess sé skynsamlegt að forðast skattahækkanir eftir fremsta megni.